Mannvit styrkir Ljónshjarta

Árlegur góðgerðarstyrkur

Ljónshjarta, samtök fyrir ungt fólk sem misst hefur maka og börn þeirra, hlaut árlegan góðgerðarstyrk Mannvits í ár. Kosning fór fram meðal starfsfólks um styrkveitinguna og þetta árið varð Ljónshjarta fyrir valinu. Karolína Helga Símonardóttir, varaformaður Ljónshjarta ásamt Aðalbjörgu Sigurþórsdóttir meðstjórnanda, tóku á móti styrknum og þökkuðu hjartanlega fyrir stuðninginn.

Markmið Ljónshjarta er að styðja við bakið á yngra fólki eftir makamissi og vera vettvangur þar sem fólk getur hjálpað hvert öðru í sorg. Starfið felst meðal annars í að halda úti heimasíðu með ýmis konar fræðsluefni og efna til fyrirlestra og samverustunda þar sem fullorðnir, unglingar og yngri börn hittast og eiga góða stund saman. Jafnframt styrkir Ljónshjarta félagsmenn sín í sorgarúrvinnslu, t.d. með endurgreiðslum kostnaðar við sálfræðiaðstoð og eru í samstarfi við Litlu kvíðameðferðarstöðina fyrir sorgarúrvinnslu barna sem hafa misst foreldra. 

Makamissir í blóma lífsins er eitt mesta áfall sem hægt er að verða fyrir á lífsleiðinni. Það tekur mjög á að vera í djúpri sorg og sinna á sama tíma börnum og heimili. Því er mikilvægt að geta fengið aðstoð við að átta sig á hvernig ráðlegast er að gera hlutina og finna á einum stað upplýsingar um réttindi sín í kerfinu og leiðir í sorgarvinnu fullorðinna og barna. Síðast en ekki síst finnst flestum mjög hjálplegt að fá að komast í kynni við og hitta fólk í sömu sporum, finna skilning og stuðning hjá þeim sem þekkja af eigin reynslu hvað við er að etja.

Á mynd: Karólína Helga Símonardóttir, varaformaður Ljónshjarta, Aðalbjörg Sigurþórsdóttir meðstjórnandi Ljónshjarta, og Björgheiður Albertsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Mannviti.