Að missa maka

Að missa maka sinn er eitt mesta áfallið sem hægt er að verða fyrir á lífsleiðinni. Með makanum missum við um leið okkar besta vin, elskhuga, barnsföður/móður, lífsförunaut og sálufélaga. Hvernig á að halda áfram með lífið þegar hinn helmingur manns er farinn? Í raun syrgjum við okkur sjálf um leið og við syrgjum maka okkar – við syrgjum þá veröld sem við áttum saman sem par og hlutverk okkar sjálfra í lífi þess sem dó og hvarf við andlátið. Fagleg aðstoð, tíminn, fjölskyldan, vinir og – kannski einna mikilvægast – einstaklingar í svipaðri stöðu eru flestum besta hjálpin. Hvers konar tilfinningar sem upp koma eiga rétt á sér og við verðum að leyfa þeim að koma því þær eru mikilvægur þáttur í sorginni. Þér líður eins og það hafi orðið heimsendir. En það varð ekki heimsendir. Lífið heldur áfram. Sorgin kemur í bylgjum en smám saman verða góðu dagarnir fleiri en þeir erfiðu og þér fer að líða betur, hægt og rólega. Það er auðvitað eins misjafnt og við erum mörg hvað þetta ferli getur tekið langan tíma; leiðin sem þú finnur í gegnum þína sorg er sú rétta fyrir þig.