Veikindi maka

Sumir segja að langvarandi veikindi ástvinar búi aðstandendur að einhverju leyti undir dauða hans. Að sjálfsögðu er það eins misjafnt og mennirnir eru margir. Í raun er mjög erfitt að vera undirbúinn fyrir það áfall að missa maka sinn enda útilokað að búa sig til fulls undir eitthvað sem maður þekkir ekki og hefur aldrei upplifað áður. Allt í kringum sjúklinginn er fólk sem einnig þarf hjálp og því miður er það svo að nánustu aðstendur þurfa yfirleitt að sækja sér hana sjálfir. Því er um að gera að nýta sér það sem í boði er hjá fagfólki eins og sálfræðingum, prestum og ráðgjöfum. Ekki vera hrædd við að biðja um aðstoð. Mjög gott getur reynst að leita til þeirra sem hafa verið í svipaðri stöðu því þar er skilning og samkennd að finna og flestum finnst gagnlegt að sækja samveru fyrir syrgjendur hjá félagasamtökum. Eftir andlát makans þurfa margir að gera upp veikindin og þá er algengt að ýmsar erfiðar tilfinningar brjótist fram, eins og reiði, sektarkennd og sjálfsásakanir. Einnig getur verið erfitt að sætta sig við vanmáttinn sem læðist aftan að manni; tilfinninguna um að hafa ekki fengið við neitt ráðið og að sjúkdómurinn hafi tekið öll völd. Þeirri kennd hefur verið líkt við að maður hafi orðið fyrir sjálfræðissviptingu. Við verðum að trúa því og treysta að við höfum gert allt sem í okkar valdi var og tekið sem réttastar ákvarðanir. Misstu ekki vonina um betri tíð. Það mun birta upp um síðir.