Við syrgjum öll á mismunandi hátt

Ári eftir dauða náins vinar skrifaði Teryn O´Brien, vinsæll bloggari, pistil um það sem hún hafði lært um sorgina undir yfirskriftinni 15 Things I Wish I‘d Known About Grief. Pistillinn fór um netið á methraða og hundruð syrgjenda bættu við hann athugasemdum um eigin reynslu. Eftirfarandi endursögn pistilsins er fengin af vefsíðunni Heilsutorg.com:

Við syrgjum öll á mismunandi hátt

Sorgin getur komið yfir okkur eins og öldur. Þú ert í lagi eina stundina en alveg niðurbrotin/n þá næstu. Í lagi í einn dag en ekki þann næsta. Nærð svo mánuði þar sem þú ert í lagi en svo kemur annar og þá líður þér aftur illa. Lærðu að fylgja flæði hjarta og hugar. Að því kemur að þér líður vel í langan tíma í senn.

  • Það er í lagi að gráta. Gráttu oft. Það er líka í lagi að hlæja. Ekki fá samviskubit yfir jákvæðum tilfinningum og skemmtilegum stundum þó þú sért að eiga við erfiðan missi.
  • Mundu að hugsa vel um sjálfa/n þig, jafnvel þó þér líði illa og finnist það tilgangslaust. Borðaðu hollan mat og farðu í ræktina. Gerðu það sem þér finnst skemmtilegt. Mundu að þú ert enn lifandi.
  • Alls ekki loka á fólk. Ekki loka þig af og slíta sambandi við þína nánustu eða bestu vini/vinkonur. Með því særirðu sjálfa/n þig og aðra.
  • Það mun enginn bregðast við þinni sorg á fullkominn hátt. Fólk, jafnvel fólk sem þú elskar, gæti brugðist þér. Margir eiga mjög erfitt með að horfast í augu við sorg annarra og upplifa vanmáttinn sem því fylgir. Vinir sem þú áttir von á að væru þér innan handar eru ekki til staðar og fólk sem þú þekkir varla mun senda þér samúðarkveðjur. Búðu þig undir að þurfa að glíma við sársauka vegna þess hvernig aðrir bregðast við sorg þinni og fyrirgefa þeim.
  • Taktu þér góðan tíma í að virkilega muna eftir manneskjunni sem þú misstir. Skrifaðu um hann eða hana, hugsaðu um allar góðu minningarnar og baðaðu þig upp úr öllum þeim frábæru og góðu stundum sem þið áttuð saman. Það hjálpar.
  • Að horfast í augu við sorgina er betra en að hundsa hana. Ekki fela þig fyrir sársaukanum. Ef þú gerir það mun sorgin verða enn sárari en ella og hætta er á að þú eigir erfiða tíma framundan.
  • Þú átt eftir að spyrja ,,hvers vegna?“ oftar en þú hélst að væri mögulegt. En þú færð sennilega aldrei svar við þeirri spurningu. Það getur verið hjálplegra að spyrja ,,hvernig?“ Hvernig get ég lifað mínu lífi til fullnustu og heiðrað minningu þess sem ég missti? Hvernig get ég elskað betur, hvernig get ég sýnt öðrum mína væntumþykju, hvernig get ég leyft þessu að breyta mér og þroska mig?
  • Þú átt eftir að reyna að flýja sorgina með því að vera upptekin/n, alltof upptekin/n. Þú átt eftir að halda að ef þú hugsir ekki um missinn að þá muni sorgin hverfa. Þannig er það alls ekki. Allir þurfa að taka sinn tíma í að syrgja og lækna brostið hjartað.
  • Það er í lagi að biðja um hjálp. Það er í lagi að þarfnast fólks. Það er í lagi, það er í lagi, já, það er sko í lagi.