Sorg barna eftir aldri

Sorgarviðbrögð barna og skilningur þeirra á lífi og dauða fara að mestu eftir aldri þeirra.

0-3 ára upplifa börn dauðann sem missi, aðskilnað eða að vera yfirgefin. Þau hafa hins vegar ekki skilning á endanleika dauðans.

3-6 ára börn eru þess fullviss að allt sé tímabundið og hægt sé að færa allt til betri vegar. Hugsun þeirra er draumórafull og þau ímynda sér að hugsanir þeirra og langanir geti leitt til þess sem hugur þeirra stendur til. Þau geta t.a.m. álitið sig eiga sök á dauða ástvinar en einnig getur þessu verið öfugt farið, þ.e. að þau geta talið að þau geti lífgað einhvern við með því að vera sérlega góð eða óska þess nógu heitt.

6-8 ára börn byrja að skilja endanleika dauðans. Þau sjá hann hins vegar mest sem afleiðingu einhverskonar slysa eða vegna öldrunar. Oft hafa þau mikinn áhuga á atburðarásinni sem leiddi til dauða og velta fyrir sér hvað taki við eftir að fólk deyr.

Eftir 9 ára aldur gera börn sér grein fyrir því að dauðinn táknar endalok og ekki er hægt að snúa frá honum. Þau gera sér grein fyrir því að allir deyja, líka þau sjálf. Á þessum aldri fara börn að sýna fullorðinslegri viðbrögð við missi og sorg.

 

 Dagný Zoega