Að festast í sorginni

Við andlát náins ættingja eða ástvinar fer af stað ákveðið sorgarferli sem oft er skipt upp í ákveðin stig. Oft vinnur syrgjandinn smám saman úr sorgarferlinu, án sérstakrar utanaðkomandi sérfræðihjálpar.

Talið er að meðaltal sorgarferlisins sé um fimm ár en að sjálfsögðu getur ferlið tekið skemmri eða lengri tíma. Sumir verða fyrir því að festast í sorginni. Það felur í sér að syrgjandinn festist á ákveðnu stigi ferlisins í óeðlilega langan tíma og nær ekki að halda áfram yfir á næsta stig. Í slíkum tilfellum er afar mikilvægt að sækja aðstoð til fagaðila og finna með honum leið til að halda áfram. Hægt er að leita hjálpar víða, meðal annars hjá sálfræðingum, geðlæknum, félagsráðgjöfum, prestum og í samveruhópum á vegum Sorgarmiðstöðvar. Þá er einnig hjálplegt að tengjast öðrum sem misst hafa maka í blóma lífsins í Ljónshjarta og óska eftir inngöngu í Facebook hóp samtakanna.