Vegleg gjöf frá ástföngnum ljónshjörtum

Þau Katrín Aðalsteinsdóttir og Kim Björgvin Stefánsson kynntust á samveru Ljónshjarta fyrir tæpum tveimur árum þegar ungar ekkjur og ekklar komu saman með börnum sínum til þess að búa til jólakort til styrktar samtökunum. Bæði hafa gengið í gegnum erfið áföll; misst maka sína í blóma lífsins frá ungum börnum og Katrín fæddi tvíburastúlkur eftir aðeins 25 vikna meðgöngu nokkru eftir að maður hennar lést. Þegar þau Katrín og Kim gengu í hjónaband 13. ágúst í sumar báðu þau ættingja og vini sem vildu gleðja þau á brúðkaupsdaginn að setja peninga í bauka á veisluborðinu merkta Ljónshjarta og vökudeild Landspítalans í stað þess að kaupa gjafir.
katrin-og-kim
Í samveru Ljónshjarta sunnudaginn 11. september sl. afhentu þau afraksturinn, 105.000 kr., og kann stjórn samtakanna þeim kærar þakkir fyrir þessa veglegu gjöf um leið og við óskum þeim hjartanlega til hamingju með hvort annað og að hafa fundið ástina að nýju. Féð verður notað til þess að efla starf Ljónshjarta enn frekar, meðal annars til fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð barna og fullorðinna og til að greiða fyrir sálfræðiaðstoð við félagsfólk.

Á myndinni sem tekin var við afhendingu gjafarinnar eru frá vinstri Rakel Óskarsdóttir, Helga Dögg Aðalsteinsdóttir og Vilborg Davíðsdóttir í stjórn Ljónshjarta, Katrín Aðalsteinsdóttir og Kim Björgvin Stefánsson, ásamt börnum sínum, þeim Guðbjörgu Emilíu Walker, tvíburunum Þóru Margréti og Halldóru Gyðu Halldórsdætrum og Stefáni Steini Björgvinssyni.