Verzló og MR gefa fé til Ljónshjarta

Ljónshjarta tók við rúmlega 180.000 króna fjárframlagi að gjöf frá nemendum Verzlunarskóla Íslands og Menntaskólans í Reykjavík þann 18. janúar. Skólarnir kepptust við að safna peningum til góðgerðamála  í byrjun október sl. Söfnunin var hluti af árlegri keppnisviku milli skólanna sem endar svo á VÍ-MR deginum sem er á föstudeginum í lok vikunnar. Þá er keppt á milli skólanna í ýmsum minni keppnisgreinum og endað á ræðukeppni um kvöldið.

,,Hugmyndin um að styrkja Ljónshjarta kom frá Málfundafélagi Verzló, sem sér um viðburðinn fyrir hönd Verzló og heldur utan um ræðu- og spurningalið skólans, sem ég er meðlimur í og vildi ólm velja þetta málefni,“ segir Sylvía Hall nemandi í Verzló en hún missti sjálf föður sinn sumarið 2012. ,,MR samþykkti það strax og strax í vikunni byrjuðu báðir skólar að auglýsa söfnunina. Við í Verzló settum smá pressu á nemendur með því að hafa bæði söfnunarbauk og auglýstum reikning sem hægt var að leggja inn á. Viðbrögðin voru mun meiri en við áttum von á og margir nemendur voru að millifæra allt upp í 10.000 kr. í söfnunina.“

Nemendur Verzló unnu söfnunarkeppnina, náðu saman 140.000 krónum og söfnuðu MR-ingar  rúmlega 40.000 krónum. Ljónshjarta kann nemendum skólanna innilegar þakkir fyrir frábært framtak. Á myndinni afhenda fulltrúar skólanna Ínu Ólöfu Sigurðardóttur formanni samtakanna og Vilborgu Davíðsdóttur, ritara þeirra, framlagið sem mun koma í góðar þarfir.