Fjármálin eru einn stærsti pósturinn sem þarf að sýsla um eftir andlát maka. Hjúskaparstaða spilar þar inn í og aðgengi að reikningum. Sækja þarf um makalífeyri og barnalífeyri til lífeyrissjóðs hins látna, og meðlag, ekkna- og ekklabætur til Tryggingastofnunar svo dæmi séu nefnd. Stéttarfélag hins látna og/eða eftirlifandi maka veitir mögulega útfararstyrk. Maki á í mörgum tilvikum rétt á launum hins látna í allt að þremur mánuðum eftir andlát. Skattkort hins látna má nýta í níu mánuði eftir andlát og hægt er að sækja um lækkun tekjuskatts með merkingu í reit í skattframtali. Hafi hinn látni verið líftryggður er mögulega hægt að fá líftryggingu greidda út.
Bankareikningar
- Bankareikningum á nafni hins látna er lokað þegar dánarvottorði hefur verið skilað.
- Því er mikilvægt að gera ráðstafanir áður til þess að hægt sé að greiða reikninga og kaupa nauðsynjar.
- Hafi hjón eða sambúðarfólk haft sameiginlega bankareikninga þarf maki að stofna nýjan reikning og sjá til þess að t.d. laun og aðrar greiðslur fari ekki inn á sameiginlegan reikning.
- Ef og þegar maki fær leyfi sýslumanns til setu í óskiptu búi er hægt að láta opna aðgang að reikningum hins látna að nýju.
Lífeyrisréttindi
- Við andlát öðlast maki rétt til lífeyrisgreiðslna, svokallaðs makalífeyris. Lífeyrissjóðir gefa upplýsingar um makalífeyri á vefsíðum sínum og makar þurfa að kynna sér réttindi sín til lífeyrisgreiðslna úr sjóði hins látna. Sjá nánar hér: Makalífeyrir.
- Barnalífeyrir er greiddur til 18 ára aldurs barns.
- Sumir lífeyrissjóðir greiða barnalífeyri lengur, til allt að 23 ára, en þá fær barnið sjálft lífeyrinn eftir að 18 ára aldri er náð.
- Sækja þarf um makalífeyri og barnalífeyri hjá viðkomandi lífeyrissjóði.
Dánarbætur
- Tryggingastofnun greiðir dánarbætur í sex mánuði frá andláti.
- Leyfilegt er að greiða bætur lengur ef bótaþegi hefur börn undir 18 ára á framfæri.
- Sótt er um dánarbætur og framlengdar dánarbætur á vef Tryggingastofnunar.
Mæðra- og feðralaun
- Tryggingastofnun greiðir einstæðum foreldrum sem hafa tvö eða fleiri börn á framfæri undir 18 ára aldri mæðra- eða feðralaun.
- Launin falla niður við breytingar á fjölskylduhögum eins og lesa má um á vef Tryggingastofnunar.
- Sótt er um mæðra- og feðralaun á vef Tryggingastofnunar.
Laun látins maka
- Eftirlifandi maki á oft rétt á launum hins látna allt að þremur mánuðum frá andláti. Vinnuveitendur eiga að geta gefið upplýsingar um það en einnig er hægt að leita til viðkomandi stéttarfélags og kynna sér samning um þetta.
Skattkort
- Eftirlifandi maki getur nýtt skattkort hins látna í níu mánuði eftir andlát.
Lækkun á tekjuskatti vegna andláts
- Veitt er ívilnun vegna útfararkostnaðar.
- Ívilnun er lækkun tekjuskatts um fasta upphæð.
- Ívilnun er veitt einu sinni og ekki þarf að geta um tengsl við hinn látna.
- Sótt er um ívilnunina á skattframtali.
Stuðningur stéttarfélaga
- Sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga veita styrki vegna útfarar.
- Reglur og upphæðir geta verið mismunandi eftir félögum. Best er að leita til viðkomandi félags til að fá réttar upplýsingar.