Eftirfarandi texti er fenginn af bloggsíðu Teryn O‘Brien, tekinn saman úr athugasemdum fjölda syrgjenda sem henni bárust eftir áhrifamikinn pistil um ástvinamissi og eigin sorg. Staðreyndin er sú að enginn getur gefið öðrum jafngóð ráð um sorgarferlið og einmitt þau sem hafa sjálf upplifað missi og þurft að læra að lifa með honum. Frumtextann má lesa á ensku hér .
Ég lærði að ég mátti ekki spennast upp á þeim stundum sem sorgin helltist yfir mig. Ég mátti ekki streitast á móti. Ég varð að gefast upp, slaka á og leyfa sorginni að skolast yfir mig. Hún myndi ekki valda mér örkumlum. Ég myndi ekki fara aftur á sama lamandi stað og þegar sorgin var ný. Þetta myndi ganga auðveldlegar yfir núna, ég þurfti ekki að vera hrædd. ~Michelle
Einu sinni sagði einhver við mig að maður lærði að lifa með ,,holunni“. Þú tekur eftir henni, veist að hún er þarna en þú lærir að fara í kringum hana og haga þér þannig að þú dettir ekki ofan í hana. ~FYL
Sorgin er eins og eitthvað sem þú hrasar um. Þú flýtir þér inn í næsta herbergi til þess að segja frá einhverju sem þér datt í hug eða kom fyrir, en það er enginn þar inni. Eða þú hugsar með þér: ,,Ég verð að muna að segja honum frá þessu.“ En þú getur það ekki. ~Donna
Jafnvel þótt ár eða áratugir líði þá koma andartök. Lykt, matur, draumur, þú kemur á stað þar sem þið bjugguð eitt sinn, sérð ljósmynd, heyrir tónlist o.s.frv. Allt þetta og miklu fleira getur stundum kallað fram bros – eða tár. Gráturinn stendur yfirleitt álíka stutt yfir og atvikið sem olli honum og yfirleitt geturðu jafnvel brosað í gegnum tárin og fundist þú vera kjánaleg/ur en þú þarft ekki að skammast þín. Brosin og hláturinn vega mun þyngra en tárin. Sorgin hverfur ekki. Það verður bara auðveldara að lifa með henni. ~Teena
Sorgarráðgjafi sagði mér að annað árið væri erfiðast vegna þess að þá er farið að draga úr áfallinu og doðanum og raunveruleikinn er farinn að verða áþreifanlegri. Ég er jarðtengdari og lifi ekki í eins miklum mæli ,,með annan fótinn í handanheiminum“. ~Julie
Sorgin er eins og að læra að ganga eftir að búið er að taka af þér fótinn. Þú getur það en þú veist alltaf að hann er farinn. Guð kemur okkur yfir erfiðasta hjallann en við verðum að halda í hönd hans til þess að komast það sem eftir er leiðarinnar. Við verðum að halda áfram að lifa og hlæja á ný. ~Carole
Ég hef lært að hætta að hafa væntingar til annarra. Svo margir vinir hafa brugðist mér – eða svo fannst mér í fyrstu. En ég veit núna að þeir þurfa á bænum og skilningi að halda, ekki síður en ég, vegna þess að þá skortir þekkingu á því hvernig á að rétta fram hjálpandi hönd. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eiga að gera eða segja. ~Linda
Það tók mig drjúgan tíma að átta mig á því að það að tala EKKI um hann var langsársaukafyllst. Ég áttaði mig á því að sögurnar MÍNAR kölluðu fram bros (stundum í gegnum tár) og að skilningurinn á því að aðrir söknuðu hans og syrgðu líka var græðandi fyrir mig og á undarlegan, ólýsanlegan hátt, til góðs fyrir okkur öll. Núna veit ég þetta. En í byrjun vissi ég það ekki. ~Angela
Ég vildi að ég hefði vitað hvað ferðalagið með sorginni er lýjandi. ~Kim
Sonur minn kenndi mér að það skiptir ekki mestu hversu lengi við lifum heldur hvað við gerum við líf okkar. ~Becky
Ekki loka þig af og snúa þér frá þeim sem enn lifa og myndu gjarnan vilja verja tíma með þér af því að þú ert svo heltekinn af þeim sem þú hefur EKKI lengur hjá þér. Ekkert okkar á morgundaginn vísan. Þau sem enn lifa vilja taka þátt í lífi þínu og hugsunum á meðan þau eru hér – ekki aðeins eftir að þau eru dáin. ~Hin dóttirin
Fólk sem skilur ekki sorgina hefur tilhneigingu til að setja á hana tímamörk. Jafnvel þótt það segi það ekki upphátt þá gefur það til kynna hvað því finnst: ,,Jæja, það eru nú komin __ ár svo að þetta ætti nú að vera búið.“ En við sem syrgjum vitum að það er ómögulegt að setja tímaramma utan um sorgina. Sorgin er ferli og hver syrgir á sinn eigin hátt, jafnvel innan sömu fjölskyldu. Ég veit af reynslunni að sorgin er orðin hluti af mér. Sorgin breytti því hver ég var en Guð hefur notað hana í lífi mínu á fleiri vegu en ég get komið orðum að … það er ljúfsárt! ~Carrie
Ekki gera of miklar kröfur til þín of fljótt. ~Nancy
Það sem mér finnst mjög áhugavert og um leið dapurlegt er að karlmenn virðast útiloka sig sjálfir frá umræðum um sorg. Konur skrifa öll sorgarbloggin sem ég hef lesið (nema það sem ég skrifaði sjálfur). Athugasemdirnar við þau voru nánast allar frá konum. Flestir karlmenn eiga erfitt með að takast á við tilfinningar og þeir (við) verða í raun og veru að horfast í augu við þá staðreynd að við finnum tilfinningalegan sársauka og verðum að finna heilbrigðar leiðir til þess að höndla hann. ~Pat
Þetta fékk mig til þess að hugsa um fegurð sorgarinnar. Fæstir sjá hana frá því sjónarhorni fyrr en eftir mörg ár. Ímyndaðu þér dauða án sorgar. Þvílíkur missir sem það væri. Dauði og missir án sársauka, án minninga, án furðunnar, án þess sára og erfiða. Mín elskaða dóttir er mitt í öllu því erfiða og sára. Ég trúi því einlæglega að það sé hamingja í tárum mínum, gleði í því erfiða og sára. Það endurspeglar allt hversu mikilvæg Madeline var í lífi mínu, hjarta og sál. Ég er þakklát fyrir þetta ferðalag. Mig langar oft til að leggja á flótta en ég þarf á þessu að halda. ~ClimbingThePolkaDotTree
Það er í lagi að vera reið. Reiði er hluti af sorgarferlinu – það er búist við henni. Fólk mun skilja reiði þína. Guð skilur reiði þína. En ekki dvelja þar til frambúðar. Reiði er skref á leiðinni til betri tíma – hún er ekki endastöð sorgarinnar. ~Michelle
Enda þótt fjölskyldan sé yfirleitt til staðar þá hef ég oftar en ekki séð hversu sjálfselsk og særandi hún getur verið þegar maður á síst von á því. Stundum birtist algjörlega ný skuggahlið sem þú bjóst ALDREI við að sjá. ~Lori
Mér hefur lærst að það er mikil fegurð í þessum heimi. Stundum þarf skelfilegan harmleik til að við sjáum það góða í lífinu – en það er þarna. ~Ross
EKKI taka neinar stórar ákvarðanir fyrsta árið sem þú syrgir. Ef þú kemst samt ekki hjá því skaltu fá hjálp einhvers sem þú treystir til að taka réttu ákvörðunina. Ég er að tala um hluti eins og að selja íbúðina, selja eða losa sig við allar eigur ástvinarins sem dó, flytja búferlum á milli landshluta, eða borga allar skuldir upp með líftrygginarfénu, sem er afgangs þegar útförin hefur verið greidd, til að hreinsa nafn ástvinar þíns o.s. frv. Þegar þú ert í djúpri sorg ertu miður þín og gætir gert eitthvað sem þú sérð eftir síðar. Gefðu þér tíma til að syrgja og huganum tíma til þess að komast í betra jafnvægi. ~Susan
Engu skiptir hversu margir segja þér að hressa þig við, halda nú áfram eða að lífið haldi áfram, þú þarft ekki að brosa falskt eða gera þér upp hugrekki. Þú átt rétt á því að syrgja. Vertu sorgmædd/ur eða reið/ur eins lengi og þú þarft. Líðan þín verður betri og tilfinningarnar jákvæðari þegar þar að kemur. Þú getur ekki ýtt á eftir eða þröngvað þeim fram til þess að gera því fólki til hæfis sem vill að þú haldir lífinu áfram. Hamingjan er ekki alltaf valkostur en hún kemur til þín á réttum tíma. ~Justime
Sorgin endar aldrei, aldrei, aldrei. Og hver myndi vilja að hún endaði? Þegar þú hættir að syrgja þá hættirðu að hugsa um ástvin þinn. Ég vil það ekki! Konan mín dó fyrir þrettán árum. Ég hef haldið lífinu áfram og á frábæra nýja fjölskyldu en hún (og látinn eiginmaður núverandi konu minnar) eru enn mikilvægur hluti af blönduðu fjölskyldunni okkar. Á afmælisdögum, dánarafmælum og skólaviðburðum barnanna eru þau enn með okkur og það er heilbrigt. Ég vil að sorg okkar taki aldrei enda. ~Mike
Tíminn einn læknar EKKI öll sár, hvað svo sem fólk segir þér. Sú fullyrðing, vinur minn, er aðeins innantómur frasi. Það sem skiptir máli er hvernig þú nýtir tímann. Ef það springur á dekki undir bílnum þínum, gerir það þá við sig sjálft ef þú gerir ekki annað en að aka út í kant og bíða? Nei. Þú verður að leggja dálitla vinnu af mörkum. Það sama gildir um sorgina. Þú getur kallað það sorgarvinnu. Þetta er þín sorg og það er þitt verk að vinna úr henni. Gerðu það. Ekki búast við því að tíminn eða annað fólk sjái um að láta þér líða betur. Og ef þú hefur ekki orðið fyrir því að festast í djúpri sorg í óeðlilega langan tíma skaltu ekki nota lyf og aldrei áfengi til þess að deyfa sársaukann. Þú verður að vinna með sársaukanum. Það er undir þér komið hversu vel þér gengur að lifa hann af. Þú verður að lifa hvern dag eins og líf þitt sé undir því komið, því að þannig er það vissulega. ~Moda
Mörgum finnst að það eigi að deyfa sársaukann en ég vil finna hann núna svo að ég geti syrgt NÚNA. Ég er að læra að takast á við daginn skamma stund í senn, lifa í núinu, og biðjast fyrir þegar myrkrið leggst yfir hugann. ~Courtney
Þú deyrð ekki af sársaukanum, treystu því. Farðu bara í gegnum hann og finndu fyrir honum. Ég vildi að ég hefði vitað það í byrjun. ~Shannon
Það sem ég hefði viljað vita er að fólk sem vill vera hjálplegt getur verið ótrúlega særandi þegar það hefur ekki kynnst því sem þú ert að fara í gegnum og segir þér hvað þú ættir að gera eða hvernig þér ætti að líða. Sorgin tekur þann tíma sem hún tekur og það er í lagi. Þú lærir að draga andann einu sinni í einu þar til þú getur haldið áfram og það er Í LAGI. Fólkið sem hefur ekki tíma fyrir sorg þína er ekki fólk sem þú þarft á að halda nálægt þér. ~Johnnie
Sorgin hefur umbreytt mér. Það er hvergi hægt að fela sig fyrir henni, engin leið út, engin flóttaleið. Í sorg ertu eins berskjaldaður og þú getur framast orðið, sorgin hrifsar frá þér allt skjól og afhjúpar þig meira en þú hefðir talið mögulegt. Hún dregur fram þá staðreynd að við erum sjálf dauðleg. Ég minnist orða föður míns: ,,Settu bara annan fótinn fram fyrir hinn, það er það eina sem þú þarft að gera.“ Ég lifði klukkustund fyrir klukkustund í eitt eða tvö ár. Ég er ekki lengur sama manneskjan sem ég var áður – og stundum ég syrgi ég þá manneskju (sjálfa mig). Og já, jafnvel þótt átta ár séu liðin á ég það til að bresta í grát… og það er allt í lagi, þannig kemst ég í snertingu við tilfinningar mínar.
Sorgin hefur varpað skýru ljósi á hvað er mikilvægast í lífinu. Hún hefur fjarlægt augnblöðkurnar og dregið gluggatjöldin frá. Hún hefur gert mig að heiðarlegri konu. Ég lifi dag í senn núna vegna þess að þannig tekst mér að halda mig við líðandi stund, eina veruleikann sem er til í raun og veru. Núna er ég er tilbúin til að mæta dauðanum hvenær sem er og þess vegna nota ég daginn í dag til þess að vera ég sjálf, elska mína yndislegu vini og fjölskyldu og gera það sem ég nýt mest. Enginn getur uppfyllt hlutverk þitt í lífinu og lifað því nema þú! Þú hefur ekki reynt lífið til fulls fyrr en þú hefur reynt dauðann. ~Deborah
Ég lærði að vera ekki hrædd. Hvorki hrædd um sjálfa mig né mína nánustu. Ég lærði að prófa nýja hluti og horfast í augu við allt sem ég óttaðist. Ég var einu sinni hrædd við að fljúga en núna er ég flugfreyja! Möguleikarnir á að halda áfram að lifa hamingjusömu lífi eru óendanlegir! ~Sherry
Reiði er hluti af sorginni. Þegar stjúpi minn dó var ég hneyksluð á sjálfri mér af því að sterkasta tilfinning mín gagnvart honum var reiði! Það var ýmislegt sem olli þessari reiði en eitt af því sem ég hef lært er að hvert einasta sorgarefni okkar tengist á einhvern hátt öllu öðru sem við höfum syrgt (eða ættum að hafa syrgt). Dauði hans reif ofan af gömlum sárum sem ég hafði aldrei unnið almennilega úr og náð að græða. ~Sue
Guð hefur verið stoðin mín. En hann er ekki töfrasproti sem getur leyst mig frá djúpum sársaukanum. Ég er að læra að ganga með honum á alveg nýjan hátt sem var mér algjörlega ókunnur áður. Að treysta, treysta, treysta jafnvel þegar mér finnst eins og ég treysti með augun lokuð í ótta mínum við að halda áfram. ~KayAnn
Það er mikil hjálp í að einbeita sér virkilega að því að rifja upp hvaðeina sem þú getur verið þakklát/ur fyrir í tengslum við þann sem dó og í lífinu yfirhöfuð. Þú getur átt von á því að stundum finnist öðrum óþægilegt að vera návistum við þig. … Gerðu þér grein fyrir því að ekkert verður aftur eins. Við eigum líf fyrir missinn, síðan er engu líkara en tíminn líkt og standi í stað en líði um leið ógnarhratt. Lífið eftir missinn er öðruvísi, jafnt fyrir þig og aðra. Það besta sem þú getur gert er að lifa einn dag í einu, og stundum aðeins eitt andartak í einu. Reyndu að vera sátt/ur við tilfinningar þínar hverju sinni. Þær hverfa ekki þótt þú streitist á móti eða berjist gegn þeim. Reyndu á erfiðustu stundunum að muna að þetta er svona núna, á þessu augnabliki, en svo kemur morgundagurinn og með honum svolítið betri líðan og svolítið meiri styrkur. ~Julie
Sorgin tekur aldrei enda og það er í lagi. ~Jessica
Eitt af því sem ég hef lært er að lífið er of stutt til þess að hafa áhyggjur af smámunum. Það geta ekki allir skynjað sársauka þinn eða skilið missinn því að samband okkar við aðra er misdjúpt. Það sem virðist ómögulegt er mögulegt fyrir Guði og hann mun koma þér í gegnum þetta. Ég hef grátið, æpt og fleygt öllum tilfinningum mínum í Guð og hann hefur fyllt mig friði og hjálpað mér þegar ég hef þarfnast þess. Hjálpin kemur úr mörgum áttum; í gegnum vini, ættingja og líka eftir leiðum sem þú átt síst von á. Haltu fast í minningarnar, það er sárt og erfitt í fyrstu en smám saman víkur sársaukinn fyrir gleði og ánægju. ~Linda
Lengi vel, eftir að Jason dó, lagði ég sömu spurninguna aftur og aftur fyrir aðra, þar á meðal þó nokkra ráðgjafa: „Hvert er markmiðið með sorgarferlinu?“ Á endanum fékk ég svarið sem ég leitaði að hjá manni sem sagði að markmiðið væri að sættast við þá staðreynd að lífið verður aldrei samt aftur. (Markmiðið var ekki að sættast við að hann hefði dáið, eða að komast yfir það, eða að finna einhvers konar lokaúrlausn á sorginni.) ~Vicki
Sorgin er vinna. Ég hef lært að þú getur ekki farið í kringum hana, yfir hana, undir hana – þú verður að fara í gegnum hana. Ég áttaði mig á þessu strax. Í fyrstu langaði mig að hlaupa – hlaupa hvert sem væri til þess að flýja hana – en ég gerði mér grein fyrir því að ég gat ekki farið neitt. Ég fann friðinn með vitneskjunni um hvar maðurinn minn er núna og að við verðum saman á ný einhvern daginn og þá fæ ég að vita hvers vegna. Guð hefur heildarmyndina, alla söguna frá upphafi til enda, og hann lætur alla hluti samverka til góðs – jafnvel þegar við skiljum þá ekki. Einhvern daginn kemur að því að við skiljum. ~Carol
Ég settist niður og las 23. Davíðssálm og ljóðlínan ,,Jafnvel þótt ég fari um dimman dal“ sló mig eins og sleggja: Ég fer um dalinn. Ég verð þar ekki um kyrrt og kveina það sem eftir er ævinnar. Á endanum fylgir Drottinn mér yfir. ~Peggy
Svo órökrétt sem það kann að virðast áttu eftir að finna til reiði í garð ástvinar þíns fyrir að deyja frá þér. Það er eðlilegt. Leyfðu reiðinni að flæða yfir þig og sóaðu ekki tíma í að finna til sektarkenndar fyrir að vera reið við hann eða hana. Þetta er hluti af sorginni. ~Peggy
Fólk segir hluti sem eru ótrúlega óviðeigandi. Ekki taka það persónulega. Sýndu því miskunn og náð. ~Trey
Ekki gleyma að anda. Þér finnst eins og einhver hafi tekið frá þér andardráttinn, eins og þú getir alls ekki haldið áfram og skilur ekki hvernig aðrir geta haldið áfram eftir að svona hræðilegur atburður hefur átt sér stað. Lífið verður aldrei eins, það er rétt, en lífið heldur samt áfram, einn andardrátt í einu, eitt skref í einu. ~Candice