Börn sem verða fyrir áföllum og sorg sýna ekki alltaf dæmigerð sorgarviðbrögð þar sem sorg þeirra er einstök og tengist mjög þroska þeirra. Ungt barn sem verður fyrir missi þarf oft að endurvinna sorgina á nýju þroskastigi. Þess vegna tekur sorgin sig oft upp aftur hjá börnum, jafnvel alveg fram á fullorðinsár.
Sorg barna er því mjög vandmeðfarin og krefst þess að við hin fullorðnu séum undir það búin að hún brjótist fram þegar barnið fæst við krefjandi þroskaverkefni eins og að byrja í skóla og á unglingsárum. Við verðum líka að vera viðbúin því að allar breytingar á högum barna geti hrundið af stað sorgarviðbrögðum og úrvinnslu sorgar.
Börn sem orðið hafa fyrir sorg eða áföllum geta sýnt óeðlilega hegðun, dregist aftur úr í námi og þroska og sýnt ýmis líkamleg einkenni og frávik.
Líkamleg einkenni barna í sorg geta verið:
- Dofi – það er yfirleitt fyrsta viðbragð við áfalli – að dofna upp. Barninu finnst það ekki geta hreyft sig og öll hugsun virðist stöðvast.
- Andþyngsli – barninu finnst eins og hálsinn herpist saman og það geti ekki náð andanum almennilega nema með stunum og andvörpum.
- Svefntruflanir – barnið á erfitt með að sofna og vaknar oft á nóttunni, jafnvel grátandi eða ofsahrætt.
- Þreyta – svefnerfiðleikar taka sinn toll og sorgin er orkufrek þannig að barnið getur virst síþreytt.
- Breyting á matarlyst – barnið er algerlega lystarlaust eða dettur í sælgæti og snakk þótt það hafi ekki lyst á mat.
- Magaverkur – barninu finnst vera hnútur í maganum og finnst jafnvel að það þurfi að kasta upp.
- Höfuðverkur – barnið kvartar um verki í höfðinu oft framan til og til hliðanna en einnig getur verkurinn lýst sér sem þungi og ljósfælni.
- Næturþvaglát – barnið getur farið að pissa undir aftur jafnvel þótt það hafi löngu hætt því.
- Verkir – barnið getur fundið til verkja hér og þar um líkamann eða verið ,,alverkja“.
Tilfinningaleg einkenni barna í sorg geta verið:
- Mikið tilfinningalegt uppnám eins og reiði og pirringur án sýnilegs tilefnis.
- Aðskilnaðarkvíði – barninu líður illa þegar foreldri eða þeir sem annast það verða að skiljast við það vegna vinnu og skóla.
- Hræðsla um að aðrir nákomnir muni einnig deyja – barnið getur fyllst ofsahræðslu um að foreldri þess eða systkini deyi.
- Miklar hugsanir um dauðann – barnið veltir sér mikið upp úr hvernig fólk deyr, hvað gerist þegar það deyr og hvað verður um það eftir að það er dáið.
- Námsörðugleikar – barnið á erfitt með að einbeita sér og ljúka verkefnum sem fyrir það eru lögð.
- Samviskubit – barninu getur fundist það eiga einhverja sök á dauða ástvinar vegna einhvers sem það gerði eða gerði ekki.
- Skólakvíði – barnið treystir sér illa til að stunda skólann – m.a. vegna aðskilnaðarins frá foreldri og heimili og þess hversu berskjaldað það er í samvistum við skólafélagana og kennarana. Barnið vill e.t.v. helst bara vera í öryggi heimilisins.
- Óyndi (þunglyndi) – barnið virðist ekki geta glaðst yfir neinu, finnur ekki upp á neinu að gera og getur setið og horft í gaupnir sér tímunum saman. Það bregst ennfremur illa við öllum tilraunum til samneytis.
Hegðunarleg einkenni barna í sorg geta verið:
- Afturhvarf í þroska – barnið getur farið að tala barnamál aftur eða pissa í buxurnar.
- Tilfinningalegt ofurnæmi – minnstu atriði, eins og að sjá annað barn skammað, geta komið barninu til að gráta eða verða hrætt.
- Stælar – barnið felur tilfinningar sínar bak við forherta framkomu, brúkar kjaft við kennara og aðra sem reyna að komast bak við grímuna eða stjórna því.
- Skapofsaköst – barnið bregst illa við boðum og bönnum og getur þá öskrað eða jafnvel skemmt hluti og meitt einhvern.
- Áhugaleysi – barnið sýnir engan áhuga á fólki, áhugmálum eða félagslegum athöfnum sem það tók áður þátt í.
- Athyglisþörf – barnið hangir utan í foreldri og kennurum og tekur upp á ýmsu til að fá athygli þeirra og annarra í kringum sig, t.d. með því að trufla kennslu kennara, símtöl foreldra o.fl.
- Hræðsla við einveru – barnið getur t.a.m. ekki verið eitt heima, jafnvel þótt það sé orðið stálpað og hafi getað verið eitt heima áður en það varð fyrir áfallinu.
- Afbrot, s.s. að stela – barnið fyllist spennu við að brjóta af sér og finnur þannig tilfinningu fyrir lífinu sem því tekst e.t.v. ekki með öðru móti. Oft er þar undirliggjandi ósk um að það náist til að það fái meiri athygli.
Öll þessi viðbrögð geta verið eðlileg og þau geta komið upp á mismunandi tímum í þroskaferli barnsins, staðið mislengi og gengið í bylgjum.
Dagný Zoega