Orð Sigurðar Pálssonar, prests í Halllgrímskirkju, eiga vel við um viðbrögð við sorg barna:
,,Barn sem glímir við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill.“
Það þýðir að barn sem orðið hefur fyrir áföllum og sorg þarf umfram allt öryggi, ástúð og tækifæri til að tjá tilfinningar sínar.
Þótt foreldrum finnist e.t.v. erfitt og sársaukafullt að þurfa aftur og aftur að svara spurningum barnsins um hinn látna og um dauðann, verða þeir að vera hreinskilnir og svara börnum af einlægni þegar þau vilja ræða málefni lífs og dauða. Eyða þarf misskilningi, sé hann til staðar, og gæta vel að orðalagi þegar rætt er um dauðann við börn svo að þau verði ekki óöruggari . Sé t.a.m. talað um að hinn látni hafi sofnað gæti barnið óttast að sofna af ótta við að deyja. Einnig hræðast mörg börn sjúkrahús af því að einhver sem þau þekktu dó þar og sjúkrahús eru því dauðastaðir en ekki staðir til að láta sér batna.
Ekki er víst að barnið vilji ræða málin þegar hinir fullorðnu vilja það. Því er mikilvægt að vera opinn og tilbúinn þegar barnið sýnir merki um að það vilji spjalla og gefa sér þá tíma til þess.
Ekki þröngva barninu til að takast á við áfallið á forsendum hinna fullorðnu. Barnið þarf að vinna sjálft með tilfinningar sínar á eigin forsendum. Það þýðir ekki að hinir fullorðnu eigi ekki að skipta sér af barninu heldur að þeir eigi að hlúa að því með hlýjum orðum, líkamlegri og andlegri nálægð og öryggi í umhverfi og athöfnum. Hlusta vel og vera til staðar.
Það er mikilvægt að daglegar athafnir og venjur haldist sem líkastar því sem vant er. Þegar barn missir foreldri sitt er mikilvægt að það foreldri sem eftir lifir rjúki ekki strax í að ganga frá munum hins látna, selja íbúðina og flytja. Það hjálpar við úrvinnslu sorgarinnar að hafa í kring um sig hluti sem minna á hinn látna og þýðingu hans fyrir eftirlifendur.
Einnig þarf áfram að sinna hversdagslegum hlutum eins og þvottum og matreiðslu og reyna hafa reglu á matar- og svefntímum þrátt fyrir sorgina.
Eigi sorgin sér aðdraganda, eins og mikil veikindi er mikilvægt að foreldrar ræði af hreinskilni um horfur og væntanlegar breytingar og leyfi barninu þannig að taka þátt í undirbúningnum og sorginni að svo miklu leyti sem þroski þess leyfir.
Börnum getur orðið mikið um að sjá fullorðið fólk gráta, sérstaklega þá sem sýna alltaf styrk. Því er mikilvægt að búa þau eins og kostur er undir það að þegar einhver deyr verði fólk sorgmætt og gráti og það sé gott fyrir fólk að gráta.
Fullvissa þarf barnið um að fullorðna fólkið annist það þótt það sé sorgmætt og barnið þarf að finna að það búi enn við ástúð þeirra sem eftir lifa.
Gleymið ekki snertingunni. Snerting er mikilvægasta tjáningarform sem við eigum og segir oft meira en þúsund orð. Barn sem er faðmað veit að það er elskað. Verið samt viðbúin því að barnið vísi snertingu frá sér meðan það er að átta sig á tilfinningum sínum. Það á sérstaklega við um unglinga – þeir vilja ekki sýna tilfinningar opinberlega og eru oft hræddir við að missa stjórn á sér.
Sorg er orkukrefjandi og því má heldur ekki gleymast að gefa börnunum hollan mat og sjá til þess að þau hvílist.
Aldrei er mikilvægara en á sorgartímum að fjölskyldur gefi sér tíma til samveru. Fjölskyldan þarf að ræða saman og vinna úr tilfinningum. Verkefni sem unnin eru í samvinnu opna oft fyrir umræður og því getur verið gott að elda saman, fara saman í gönguferðir, spila saman á spil eða hvað það sem fólki finnst gott að gera til að dreifa athygli og skapa vellíðan.
Oft þurfa foreldrar ekki síður stuðning og leiðsögn um það hvernig þeir geta sem best hjálpað barninu að vinna úr sorginni. Hafa verður í huga að þetta er tími sorgar fyrir alla fjölskylduna og foreldrarnir eru e.t.v. ekki í stakk búnir til að hjálpa barninu vegna þess hve þeim sjálfum líður illa. Þá getur þurft að leita til annarra til að hjálpa fjölskyldunni, t.d. vina, ættingja eða annarra. Foreldrar vina barnanna gegna stóru hlutverki. Börn í sorg vilja oft dreifa huganum og fá að leika við vini sína. Þessir foreldrar þurfa því að koma sterkir inn.
Þótt foreldrum geti virst erfitt að hafa börnin nálægt þegar þeir eru sjálfir yfirkomnir af sorg er varhugavert að senda börnin annað, jafnvel þótt það sé einungis í skamman tíma . Börnin eru líka í uppnámi og því er aldrei mikilvægara en einmitt á erfiðum tímum að þau hafi foreldra sína hjá sér. Betra er ef einhver vinur getur komið til fjölskyldunnar og létt undir – sinnt praktískum hlutum, svarað í símann og sinnt börnunum inni á heimilinu.
Oft þegar fólk verður fyrir áföllum og missi verður fólkið í kringum það vandræðalegt og veit ekki hvernig það á að koma fram við hina syrgjandi. Þetta getur verið barninu sérstaklega erfitt og nauðsynlegt útskýra það strax bæði fyrir barninu og þeim sem hlut eiga að máli.
Dagný Zoega