Sorg er eðlileg
Miklum missi fylgir sorg. Við syrgjum þegar einhver nákominn okkur deyr. Sorgin er þáttur í söknuði okkar og aðlögun að nýju lífi. Þótt sorg sé eðlilegt ferli er hún ein af erfiðustu kenndum sem við finnum fyrir.
Þín sorg er versta sorgin
Eigin sorg er ætíð sú erfiðasta, hvort sem við missum maka, barn, foreldri eða systkini og hvernig sem missinn ber að – skyndilega eða eftir veikindi.
Leiðin út úr sorginni er í gegnum hana
Sorgin er sársaukafull. Ástvinamissir er eitt erfiðasta áfallið sem við verðum fyrir og það er engin auðveld leið til að halda áfram. Við gætum reynt að forðast sársaukann, komast sem fyrst í gegnum sorgina en það er ekki hægt. Við verðum að finna hugrekki til að lifa með sorginni.
Sorgin er nátengd sambandinu við þann sem fallinn er frá
Samband okkar við aðra manneskju er alltaf einstakt og hefur ákveðið gildi fyrir okkur. Ef við viljum skilja viðbrögð okkar við sorginni til fulls þurfum við að átta okkur á því hvert samband okkar við hinn látna var og þar af leiðandi hvað það er sem við erum að missa. Við syrgjum maka á annan hátt en barn, vin eða foreldri. Ástvinamissir verkar á okkur með ólíkum hætti og því syrgjum við á mismunandi hátt.
Sorgarferlið er mikil vinna
Sorgarúrvinnsla krefst mikillar orku, oftast mun meiri en fólk býst við. Hún tekur á jafnt líkamlega sem andlega.
Sorgarferlið tekur langan tíma
Fyrstu mánuðurnir eru yfirleitt afar tilfinningaþrungnir. Fyrsta árið er erfitt – allt minnir á missinn, til dæmis fyrstu jólin, afmælisdagar, þegar ár er liðið frá andláti og enn fleiri viðburðir. Allir þessir dagar eru erfiðir en við verðum að sjá fram úr þeim, vita að þeir eru eðlilegir og sýna sjálfum okkur samúð. Sumir kalla annað árið ár einmanaleikans. Það er þá sem við gerum okkur enn frekar grein fyrir því að lífið er og verður alltaf án þess sem fallinn er frá.
Sorgin er óútreiknanleg
Syrgjandi gengur í gegnum margvíslegar tilfinningar og hegðun. Ekki einungis þær sem almennt eru tengdar við sorg svo sem depurð eða grát, heldur getur margt sem hann gerir og hugsar um verið gjörólíkt honum. Þegar syrgjandinn heldur að hann hafi náð tökum á sorginni gerist allt í einu eitthvað honum að óvörum. Það eina sem er öruggt við sorgina er að hún er óútreiknanleg.
Oft þarf að takast á við annars konar missi
Andlát maka getur leitt til margvíslegra annarra breytinga á lífi manns. Margir missa um leið fjárhagslegt öryggi, heimili sitt eða jafnvel sjálfstæði. Draumar um framtíðina hverfa eins og dögg fyrir sólu, t.d. um að lifa hamingjusöm til æviloka eða verja efri árum saman. Þetta kallar allt á sorgarviðbrögð.
Sorgin kemur og fer
Í fyrstu finnur syrgjandinn ekki alltaf til mikils sársauka því að hann er dofinn og í áfalli. Oft verður sársaukinn dýpri eftir nokkra mánuði. Sorgarferlið getur verið eins og rússíbanareið. Einn daginn líður syrgjandanum ágætlega en þann næsta er hann langt niðri. Einmitt þegar hann heldur að hann sé að komast yfir sorgina læðist að honum mikil depurð. Þeir sem ekki gera sér grein fyrir þessu ferli gætu orðið fyrir miklum vonbrigðum með bakslagið en það er mikilvægt að átta sig á því að sorgarferlinu vindur svona fram.
Sorgarúrvinnslan verður áhrifaríkust með aðstoð
Fólk hefur oft óraunhæfar hugmyndir um sorgina og getur brugðist við með óviðeigandi hætti. Fæstir skilja hvernig sorgarferlið gengur fyrir sig og búast við að syrgjandinn jafni sig nokkuð fljótt. Fólk getur virst ónærgætið en í raun heldur það oft að sorgin sé svo persónuleg að það eigi ekki að ræða hana. Því finnst óþægilegt að vera í návist við syrgjandann og eftir jarðarförina er hinn látni ekki nefndur á nafn því að fólk óttast að segja eitthvað óviðeigandi. Það vill vel en syrgjandi sem finnur slíkar óraunhæfar væntingar á það til að draga sig í hlé. Það er gott leita til fagaðila eða finna fólk sem deilir svipaðri eða sömu reynslu. Það getur verið mjög hjálplegt að ræða við einhvern sem skilur sorgina og að hún snýst um að lifa með missinum.
Snúið á íslensku úr greininni 10 Facts About Grief