Sorgin

Ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni. Hún er sammannleg tilfinning, eðlileg viðbrögð við missi, en þó fer hvert og eitt okkar á sinn eigin hátt í gegnum ferlið sem tekur við eftir dauðsfall náins ástvinar. Mörgum hefur reynst vel að leita skilnings og stuðnings bæði hjá fagfólki og einnig meðal þeirra sem skilja af eigin raun hversu erfitt er að fóta sig í þessari framandi veröld sem okkur var varpað inn í án þess að fá nokkru um það ráðið; svipt valdinu til að stjórna eigin lífi. Ýmis konar lesefni stendur okkur til boða og undir hlekkjunum hér er að finna gagnlegar greinar og góð ráð fyrir okkur sem syrgjum og einnig þá sem standa okkur næst.

10 staðreyndir um sorg Góð ráð í sorg fyrir syrgjanda Góð ráð í sorg fyrir aðstandendur syrgjanda

Að festast í sorginni

Við andlát náins ættingja eða ástvinar fer af stað ákveðið sorgarferli sem oft er skipt upp í ákveðin stig. Oft vinnur syrgjandinn smám saman úr sorgarferlinu, án sérstakrar utanaðkomandi sérfræðihjálpar.

Talið er að meðaltal sorgarferlisins sé um fimm ár en að sjálfsögðu getur ferlið tekið skemmri eða lengri tíma. Sumir verða fyrir því að festast í sorginni. Það felur í sér að syrgjandinn festist á ákveðnu stigi ferlisins í óeðlilega langan tíma og nær ekki að halda áfram yfir á næsta stig. Í slíkum tilfellum er afar mikilvægt að sækja aðstoð til fagaðila og finna með honum leið til að halda áfram. Hægt er að leita hjálpar víða, meðal annars hjá sálfræðingum, geðlæknum, félagsráðgjöfum, prestum og í samveruhópum á vegum Sorgarmiðstöðvar. Þá er einnig hjálplegt að tengjast öðrum sem misst hafa maka í blóma lífsins í Ljónshjarta og óska eftir inngöngu í Facebook hóp samtakanna.

Mismunandi stig sorgar

Sorg er fólgin í eðlilegum viðbrögðum við missi og felst í tilfinningalegum og líkamlegum einkennum. Fólk upplifir sorg á mismunandi hátt tengt eftirfarandi þáttum: Tegund sorgar, tengslum við hinn látna, fyrri reynslu, trúarskoðunum, aldri og kyni syrgjandans. Konur tjá sig oft meira um sorgina en karlar, sérstaklega um depurð og ótta. Þrátt fyrir að sorgin geti verið mjög sársaukafull þá er hún mikilvægt skref í áttina að því bataferli sem er nauðsynlegt eftir missi. Sorg er ekki atburður, heldur ferli sem getur tekið langan tíma. Sorgin veldur breytingu á lífi þess sem syrgir. Það getur tekið langan tíma að vinna úr sorginni eftir missi ástvinar. Flestir ná einhvers konar sátt á einu til tveimur árum.

Fyrir marga er hjálplegt að skilgreina sorgina út frá nokkrum stigum tilfinninga. Röð stiganna og lengd er mismunandi á milli einstaklinga. Sumir upplifa eitt stig meira en annað og það upplifa ekki allir öll stigin.

Áfall, doðatilfinning og afneitun

Gerist yfirleitt strax á eftir missi. Syrgjandinn ímyndar sér að missirinn hafi ekki orðið. Syrgjandanum finnst hann áhorfandi að lífinu en ekki þátttakandi. Syrgjendur lýsa líðan sinni þannig að þeir séu ,,frosnir“ eða ,,fastir“. Doðatímabilið einkennist af því að syrgjendur heyra ekki það sem sagt er, skilja það ekki og sjá ekki samhengið. Þetta getur jafnvel varað í 3-4 mánuði. Þessi doðatilfinning er í raun vörn fyrir syrgjandann til að hjálpa honum að takast á við erfið verkefni, svo sem skipulag jarðarfararinnar. Afneitun er algeng, að neita að horfast í augu við missinn. Hún gefur syrgjandanum færi á að ná áttum og taka við sársaukanum í litlum skömtum í einu. Áfallið og afneitunin getur varað frá nokkrum klukkutímum til nokkurra mánaða.

Reiði

Reiði getur komið fram hjá syrgjandanum, út í hann sjálfan, hinn látna, annað fólk s.s. ættingja og heilbrigðisstarfsfólk, út í Guð og svo framvegis. Oft fylgir ásökun eða sektarkennd í kjölfar reiðinnar, vegna þess sem var sagt eða gert og einnig yfir því sem ekki komst í verk að segja eða gera. Mikilvægt er að horfast í augu við reiðina og sýna þær tilfinningar sem við höfum í sorgarferlinu. Fólk sem geymir reiðina innra með sér getur upplifað seinna í lífinu bæði líkamleg og streitutengd vandamál vegna þessara niðurbældu tilfinninu.

Úrvinnsla tilfinninga, svo sem reiði, kvíða, depurðar og þunglyndis

Depurð og/eða þunglyndi tengist oft söknuði, einmanaleika og vonleysi í sorginni, jafnvel löngu eftir missinn. Þunglyndi kemur stundum í kjölfar reiðinnar. Það einkennist af kvíða og örvæntingu. Þessar tilfinningar geta haft áhrif á daglegt líf viðkomandi, þannig að syrgjandinn hugsar minna um eigin heilsu, hann nærist illa og á minni samskipti við ættingja og vini. Syrgjandinn einangrar sig, kvíðir nýjum degi, er bjargarlaus og á erfitt með að einbeita sér að nauðsynlegum verkefnum. Hann fær martraðir og ofskynjanir, finnst hann jafnvel sjá hinn látna.

Sátt og skilningur

Eðlilegt er að upplifa allar ofantaldar tilfinningar og getur oft verið nauðsynlegt í sorgarúrvinnslunni. En það er líka mikilvægt að geta unnið sig í gegnum þessar tilfinningar, sigrast á þeim, tekist á við raunveruleikann og öðlast sátt. Eftir því sem tíminn líður mun draga úr sorginni og hún verður sársaukaminni en hverfur kannski aldrei að fullu.

Ýmis líkamleg einkenni geta komið fram hjá syrgjandanum

Hjartsláttarköst, herpingur í brjósti, svimaköst, hár blóðþrýstingur, höfuðverkur, sjóntruflanir, þyngdartap, lystarleysi, minnisleysi, óróleiki, pirringur, orkuleysi, tárin streyma auðveldlega, öndun er hröð, þung andvörp, hármissir og meltingarfæratruflanir; óróleiki í maga, niðurgangur og hægðatregða.

Rannveig B. Gylfadóttir