Sorg er kennd sem fylgir missi. Hún er ferli, ákveðin vegferð sem endar ekki á ákveðnum tíma eða degi heldur er hún afar persónuleg. Sorg er eins raunveruleg og missirinn sem hún sprettur af, eins raunveruleg og manneskjan sem við misstum. Söknuðurinn sem fylgir missinum er yfirþyrmandi vegna þess að sorgin er andstæða þeirrar ástar sem við nutum en er nú horfin.
Við höldum að við viljum forðast sorgina en í raun er það sársaukinn sem við viljum forðast. Sorgin er heilunarferli sem leiðir til huggunar í sársauka okkar.
Sorg er ekki bara röð atburða, stig eða tímalína. Samfélagið setur gríðarlega pressu á okkur að komast yfir sorgina, fara í gegnum hana. Hversu lengi syrgir ekkja eiginmann sinn til 50 ára? Eða foreldrar ungling sem deyr í slysi? Eða fjögurra ára gamalt barn sitt ? Eitt ár? Fimm ár? Að eilífu? Sorginni lýkur ekki heldur fylgir hún okkur alla ævi.
Stigin fimm, afneitun, reiði, málamiðlun, þunglyndi og sátt eru hluti af á því ferli að læra að lifa án maka. Þau hjálpa okkur að átta okkur á og ramma inn tilfinningar okkar hverju sinni. En þau eru ekki í ákveðinni röð og það fara ekki heldur allir í gegnum öll fimm stigin. Við höfum öðlast meiri skilning á ferlinu frá því að stigin voru fyrst skilgreind. Þeim var aldrei ætlað að pakka tætingslegum tilfinningum saman í nettan böggul heldur er þeim ætlað að lýsa viðbrögðum margra þeirra sem verða fyrir missi. Það er ekki til neitt sem heitir dæmigerð viðbrögð enda er ekki til neinn dæmigerður missir. Sorg okkar er persónubundin rétt eins og lífið sjálft.
Afneitun er yfirleitt fyrsta skrefið í sorgarferlinu. Hún hjálpar okkur að komast yfir missinn. Á þessu stigi er sem heimurinn sé svartur og kaldur og lífið hafi engan tilgang. Við verðum dofin og veltum því fyrir okkur hvernig við eigum að fara að því að halda áfram að lifa. Afneitunin hjálpar okkur á þessum erfiða tíma þegar eina markmiðið er að komast í gegnum daginn. Afneitunin flýtir sorgarferlinu. Hún er í hnotskurn úrræði manns til að takast á við og meta þessar erfiðu aðstæður.
Þessar tilfinningar eru mikilvægar; þær eru varnarkefi sálarinnar. Okkur er um megn að takast á við tilfinningarótið sem fylgir missinum. Við trúum ekki að það sem hefur gerst geti verið af hinu góða enda myndi sú vissa vera yfirþyrmandi.
Ef börn geta elskað eru þau líka fær um að syrgja. Sem dæmi má nefna að þegar foreldri fellur frá þarf það foreldri sem eftir lifir að sinna um sorg barnsins. Foreldrið þarf jafnframt að huga að eigin sorg og horfast í augu við það að vera orðið einstætt foreldri. Það þarf, rétt eins og barnið, að fá stuðning í sorginni. Börn syrgja á annan hátt en fullorðnir. Þau tala ekki endilega mikið um tilfinningar sínar. Dauði í fjölskyldu barns verður oft til þess að því finnst það vera öðru vísi en önnur börn. Börnum líður oft eins og þau séu frábrugðin öðrum en dauðsfall eykur oft á þessa tilfinningu og barni sem missir náinn aðstandanda finnst það oft vera enn meira einangrað.
Stuðningshópar fyrir syrgjendur eru gríðarlega mikilvægir og hjálplegir börnum. Þar hitta þau önnur börn sem deila reynslu þeirra.
Sorg er heilunarferli sem hjálpar okkur að takast á við missinn. Sorgarferlið hefur ekki skýrt upphaf eða endi heldur er það endurvarp fjölda tilfinninga og kennda sem hverfast um missinn. Sorgin fellur að og fjarar út lífið á enda. Við komumst ekki yfir ástvinamissinn en við lærum að lifa með honum. Hver og einn syrgir eins lengi og hann þarf. Einhvern tímann kemur að því að við getum minnst maka okkar án þess að finna til.
Velviljað fólk spyr oft manneskju sem er í mikilli sorg hvað það getur gert til að hjálpa. Í djúpri sorg er fólk oft týnt og ber ekki skynbragð á hvað gæti orðið til hjálpar. Það er allt í lagi að spyrja en það er jafnvel betra að bjóðast til að taka að sér tiltekið verk eða að stíga bara inn í og hjálpa á einhvern hátt. Ef það þarf að vaska upp, fara út með ruslið, taka til eða eitthvað þess háttar – gerðu það þá bara án þess að spyrja hvort viðkomandi þurfi hjálp. Færðu þeim sem syrgir mat, eldaðu eitthvað gott og farðu með til viðkomandi. Það er hægt að bjóðast til að ná í krakkana, skutla þeim, fara í búð og og gera margvíslega hversdagslega hluti sem létta undir með þeim sem syrgir. Fleiri hugmyndir.
Margir eru á þeirri skoðun að börn eigi ekki að vera við jarðarfarir, ýmist vegna þess að þeir telja að það geti valdið barninu hugarangri eða að barnið geti truflað athöfnina. Sannleikurinn er sá að það er oftast gott að leyfa barni að vera við jarðarför en nokkur atriði ætti að hafa í huga. Það þarf að búa barn undir athöfnina, segja því hvernig athöfnin fer fram, hvað hún verður löng, hvar barnið á að sitja og að það verði að öllum líkindum grátið. Vilji barn fara eftir að athöfnin hefstætti það að virða það. Einnig ætti að virða ósk barns sem segist ekki vilja vera við jarðarför. Sé barnið nógu gamalt má segja við það að þetta sé góð leið tl að kveðja þann sem er látinn. Það er mikilvægt að barnið fái stuðning oghafi einhvern til að hugga sig. Þú skalt vera búin/-n að biðja einhvern annan að vera til staðar fyrir barnið þitt ef þú skyldir ekki treysta þér til að gera það sjálf/-ur Að jarðarförinni lokinni skaltu ræða um hana við barnið og fá það til að segja þér hvaða þýðingu hún hafði fyrir það.
Snúið á íslensku úr greininni Frequently Asked Questions About Grief & Grieving