Ástvinamissir er hluti af lífinu og allir verða einhvern tímann fyrir missi. Það er þó misjafnt hversu snemma og hversu miklum. Börn bregðast oft öðruvísi við missi en fullorðnir en það þýðir ekki að hann sé þeim auðveldari en hinum fullorðnu. Börn geta verið mjög einmana í sorg sinni. Það er erfitt fyrir þau að leita til annarra barna því þau skilja ef til vill ekki sorgina og vilja bara leika sér. Það er líka erfitt fyrir börn í sorg að leita til fullorðinna því þeir tilheyra öðrum heimi. Aukin þekking á tilfinninga- og vitsmunalífi barna og þroskaferli þeirra hefur breytt sýn okkar á börnum og hvernig þau skilja umheiminn, þar á meðal sorg.
Sorgarviðbrögð barna og skilningur þeirra á lífi og dauða fara að mestu eftir aldri þeirra.
0-3 ára upplifa börn dauðann sem missi, aðskilnað eða að vera yfirgefin. Þau hafa hins vegar ekki skilning á endanleika dauðans.
3-6 ára börn eru þess fullviss að allt sé tímabundið og hægt sé að færa allt til betri vegar. Hugsun þeirra er draumórafull og þau ímynda sér að hugsanir þeirra og langanir geti leitt til þess sem hugur þeirra stendur til. Þau geta t.a.m. álitið sig eiga sök á dauða ástvinar en einnig getur þessu verið öfugt farið, þ.e. að þau geta talið að þau geti lífgað einhvern við með því að vera sérlega góð eða óska þess nógu heitt.
6-8 ára börn byrja að skilja endanleika dauðans. Þau sjá hann hins vegar mest sem afleiðingu einhverskonar slysa eða vegna öldrunar. Oft hafa þau mikinn áhuga á atburðarásinni sem leiddi til dauða og velta fyrir sér hvað taki við eftir að fólk deyr.
Eftir 9 ára aldur gera börn sér grein fyrir því að dauðinn táknar endalok og ekki er hægt að snúa frá honum. Þau gera sér grein fyrir því að allir deyja, líka þau sjálf. Á þessum aldri fara börn að sýna fullorðinslegri viðbrögð við missi og sorg.
Börn sem verða fyrir áföllum og sorg sýna ekki alltaf dæmigerð sorgarviðbrögð þar sem sorg þeirra er einstök og tengist mjög þroska þeirra. Ungt barn sem verður fyrir missi þarf oft að endurvinna sorgina á nýju þroskastigi. Þess vegna tekur sorgin sig oft upp aftur hjá börnum, jafnvel alveg fram á fullorðinsár.
Nánar um sorgarviðbrögð barna.
Þótt flest viðbrögð og hegðun séu eðlileg þegar barn hefur orðið fyrir áfalli og missi megum við ekki skella öllum útskýringum á líðan og hegðun barna á sorgina. Ef barn sem hefur orðið fyrir áfalli nær ekki að vinna úr sorg sinni festist það í sorgarferlinu og við tekur óeðlilegt ástand sem getur endað í mikilli sálrænni kreppu. Viðbrögð eins og magapína eða andarteppa geta líka átt sér líkamlega skýringu sem ekki tengist sorginni og barnið getur þurft á læknismeðferð að halda.
Sýni börn yfirdrifin sorgareinkenni í langan tíma er ástæða að ætla að þau ráði ekki við úrvinnslu sorgarinnar og þurfi faglega aðstoð.
Orð Sigurðar Pálssonar, prests í Halllgrímskirkju, eiga vel við um viðbrögð við sorg barna:
,,Barn sem glímir við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill.“
Það þýðir að barn sem orðið hefur fyrir áföllum og sorg þarf umfram allt öryggi, ástúð og tækifæri til að tjá tilfinningar sínar.
Nánar um aðstoð við barn í sorg.